Endurvinnsla er okkar fag
Fyrirtækið Hringrás er leiðandi í endurvinnslu brotajárns á Íslandi.
Hringrás ræður yfir hagkvæmum og góðum tækjakosti sem gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum okkar öfluga og góða þjónustu svo sem:
- Færanlegar og hraðvirkar brotajárnspressur
- Ný og öflug pressa í Sundahöfn
- Stórvirkar klippur
- Öruggar beltagröfur, grabbar og seglar
- Stórir og hagkvæmir vagnar og vörubílar
- Flutningabílar til að sækja brotamálm.
- Stórir og smáir gámar og gámabílar
Hringrás vinnur eftir ströngum reglum gæðastjórnunar sem miða að því að bæta og straumlínulaga starfsemi fyrirtækisins.
Aðferðir og tæki til söfnunar, vinnslu og útflutnings brotamálma hafa þróast mikið, en fyrirtækið hefur flutt úr landi hátt í eina milljón tonna af brotajárni. Í meira en hálfa öld hefur Hringrás þróað nýjar aðferðir við endurvinnslu brotajárns og málma og innleitt ýmsar lausnir við endurvinnslu brotajárns og málma sem hafa gefist vel við íslenskar aðstæður. Hringrás hefur tekið að sér fjölda hreinsunarverkefna í íslenskri náttúru með góðum árangri um land allt. Meðal slíkra verkefna má nefna niðurrif Kísilverksmiðjunnar við Mývatn, hreinsun og átaksverkefni fyrir ýmis bæjarfélög auk niðurrifsverkefna fyrir Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.
Athafnasvæði Hringrásar er að Klettagörðum 9 í Reykjavík. Þar er tekið við bílum til förgunar, brotajárni, málmum og spilliefnum. Félagið er einnig með aðstöðu til móttöku víðs vegar um landið. Færanlegar endurvinnslustöðvar Hringrásar gegna lykilhlutverki í þjónustu við bæjarfélög á landsbyggðinni en þannig getur fyrirtækið leyst á hagkvæman hátt margvísleg almenn verkefni á vegum minni bæjarfélaga auk sérstakra niðurrifsverkefna sem upp kunna að koma.
Þegar um er að ræða niðurrifsverkefni eða efni sem þarf að farga er hægt að leita tilboða í verkið hjá Hringrás. Einnig er algengt að fyrirtæki og bæjarfélög geri langtímasamning við Hringrás sem þá sér um að úrgangur safnist ekki upp hjá viðkomandi viðskiptavini. Ef um góð endurseljanleg efni er að ræða getur slík þjónusta gefið nokkrar tekjur af sér fyrir verkkaupa.
Hringrás
Sagan og uppruninn
Upphafsmaður fyrirtækisins var Einar Ásmundsson járnsmiður, (1901-1981), sem árið 1924 stofnaði litla vélsmiðju í porti við Lækjargötu, þar sem nú er bílastæði Íslandsbanka. Árið 1949 var Einar staddur út í Póllandi til að kaupa járn og stál fyrir íslenskan iðnað. Á þeim tíma hafði vígbúnaðarkapphlaup eftirstríðsáranna skapað mikinn hráefnisskort. Af þeim sökum var hið eina í stöðunni að gera vöruskiptasamning við Pólverjana, sem byggði á því að Einar safnaði saman öllu brotajárni sem hann komst yfir og í staðinn fengi hann járn og stál. Með þessum hætti var styrkum stoðum skotið undir Endurvinnsludeild Sindra, sem hóf formlega starfsemi árið 1950. Sonurinn Ásgeir Einarsson (1927-2001) tók þátt í uppbyggingu fyrirtækisins en hann var elstur átta systkina og gegndi hann starfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins um margra ára skeið.
Fyrsta aðsetur brotamálmsendurvinnslu Sindra var við gamla Kolaportið, á svipuðum slóðum og Seðlabanki Íslands stendur nú. Síðar fluttist smiðja og skrifstofa að Hverfisgötu 42. Starfsemin komst síðan öll undir einn hatt þegar stál- og járnbirgðarstöð, ásamt brotajárnsdeild og smiðju, fluttust upp í Borgartún. Rekstur Sindra varð mjög umsvifamikil og snerist að mestu leyti um framleiðslu á alls kyns stálvörum ásamt ýmsum hliðarvörum eins og húsgögnum úr stáli, plasti og tré, sem voru klædd t.d. með íslenskum skinnum og ullaráklæðum. Árið 1965 var nafni Sindra breytt yfir í Sindra-Stál, sem upp frá því tók að þróast frá iðnframleiðslu yfir í alhliða þjónustu- og innflutningsfyrirtæki fyrir málmiðnaðinn í landinu. Árið 1989 var rekstrinum skipt upp. Ásgeir Einarsson og fjölskylda keyptu endurvinnsluhlutann út og völdu honum nafnið Hringrás. Hjá Hringrás starfa nú um 40 manns.